Íslenski boltinn

Starfsmenn KSÍ drekka Coke í vinnunni en ekki Pepsi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Formaður KSÍ segist drekka bæði Coke og Pepsi.
Formaður KSÍ segist drekka bæði Coke og Pepsi. Samsett mynd/Kristinn

Það hefur vakið athygli gesta í Laugardalnum að á skrifstofum KSÍ er einungis Coke á boðstólnum en ekkert Pepsi. Sem kunnugt er þá heita efstu deildir karla og kvenna Pepsi-deildirnar og munu gera það næstu árin.

Þetta á sér þó allt eðlilegar skýringar enda KSÍ í samstarfi við bæði Ölgerðina og Vífilfell. Ölgerðin styrkir efstu deildirnar en Vífilfell er einn af stóru styrktaraðilum KSÍ og hefur verið undanfarin ár.

„Við erum með samning við Vífilfell þannig að það verður Coke áfram í kælunum. Við drekkum samt Pepsi líka," sagði glaðbeittur formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson.

Hann segist drekka Pepsi rétt eins og Coke. „Ég drekk allt sem flýtur bara," sagði Geir og hló dátt en hann vildi ekki gefa upp hvort honum þætti betra, Coke eða Pepsi.

„Það mun engu að síður að sjálfsögðu verða boðið upp á Pepsi á viðburðum tengdum Pepsi-deildunum," sagði Geir en starfsmenn KSÍ munu halda áfram að drekka Coke og ku una glaðir við sitt.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×