Innlent

Semja verður upp á nýtt við erlenda kröfuhafa

Íslendingar geta ekki staðið undir vaxtabyrði vegna erlendra skulda þjóðarbúsins að mati hagfræðings. Semja verður upp á nýtt við erlenda kröfuhafa.

Félag viðskipta- og hagfræðinga stóð fyrir hádegisverðafunda á Grand Hótel í dag undir yfirskriftinni Hver er staða þjóðarbúsins? Er Íslands Gjaldþrota? Frummælendur voru þeir Tryggvi Þór Herbertsson og Haraldur L. Haraldsson.

Fram kom í máli Haraldar að skuldir þjóðarbúsins væru orðnar það miklar að vaxtagreiðslurnar einar ættu eftir sliga efnahagslífið að óbreyttu.

„Ég veit ekki hvort það er hægt að segja gjaldþrota en við getum ekki borgað þessar erlendu skuldir okkar. það held ég að sé nokkuð ljóst," segir Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Nýsis.

Haraldur segir ennfremur ljóst að ríkið getur ekki tekið á sig frekari skuldbindingar vegna bankahrunsins.

„Það sem ég hef verið að leggja áherslu á að menn séu ekki að fara í viðræður útaf Icesave reikningunum út frá því að skoða einhverja nettó stöðu og segja það koma svo og svo eignir upp í þetta eftir einhvern tíma. Við verðum að skoða hvað við þurfum að borga í vexti í dag. Það held ég að séu aðal vandamálið að vaxtagreiðslurnar eru of miklar," segir Haraldur.

Tryggvi Þór Herbertsson telur óhjákvæmilegt að taka eignir með á móti skuldum og af því gefnu sé staða ríkissjóðs bærileg.

„Það er alls ekki hægt að tala um að það séu erfiðleikar við að standa í skilum og annað slíkt, en aftur á móti skulda heimilin og fyrirtækin mikið útaf þessu verðbólguskoti sem kom hérna og gengisfalli sem varð á íslensku krónunni. Og það þarf að bæta eins og ég hef talað um," segir Tryggvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×