Fótbolti

Batistuta er ekki hættur í sportinu - farinn að keppa í póló

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Batistuta á hesti sínum í miðjum póló-leik.
Batistuta á hesti sínum í miðjum póló-leik. Mynd/AFP

Gabriel Batistuta, markahæsti landsliðsmaður Argentínu, er ekki hættur í sportinu þrátt fyrir að vera orðinn fertugur. Batistuta lagði fótboltaskóna á hilluna fyrir fjórum árum en hefur nú hafið keppni í póló með Boca Juniors.

Batistuta mun spila með nýju póló-liði Boca, Boca Polo Team, þar sem mun hér eftir skora mörkin sín sitjandi á hestbaki. Meðal leikmanna liðsins verður frægasti póló-spilari Argentínu og einn sá besti í heimi í sinni grein - Adolfo Cambiaso.

Fótboltalið Boca Juniors var eitt af þremur argentínskum liðum sem Batistuta spilaði með áður en hann fór yfir til Evrópu 1991. Batistuta spilaði einnig með Newell's Old Boys og River Plate.

Gabriel Batistuta skoraði alls 254 mörk í 441 deildarleikjum á ferlinum en hann er markahæsti landsliðsmaður Argentínu frá upphafi með 56 mörk í 78 leikjum frá 1991 til 2002.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×