Innlent

Olía gæti fundist undir Íslandi

Olíu gæti verið að finna undir norðausturhluta Íslands, að mati jarðfræðings hjá Olíustofnun Noregs. Hann segir að bora verði djúpt undir þykk hraunlög til að finna það áhugaverðasta.

Í Olíustofnun Noregs í Stavanger starfa þeir sérfræðingar sem búa yfir hvað mestri þekkingu um möguleika Drekasvæðisins. Christian Magnus jarðfræðingur þar segir að af hljóðbylgjumælingum frá Jan Mayen hryggnum megi ráða að þar sé að finna merki um að minnsta kosti gas í jarðlögum en til að komast að því hvort borgi sig að vinna það verði að bora niður til að sjá magnið.

Jarðfræðingurinn veltir því upp hvað leynist undir sjálfu Íslandi því vísbendingar séu um að Jan Mayen-hryggurinn teygi sig undir landið. Vilji menn bora verði það að gerast á norðausturhluta Íslands í von um að finna syðsta hluta Jan Mayen-hryggjarins. Ekkert sé hægt að fullyrða um olíu en þetta sé spennandi. Bora verði mjög djúpt undir hraunlög til að komast niður á það áhugaverðasta, segir Christian Magnus.

Sá Norðmaður sem lýst hefur hvað mestri bjartsýni um Drekasvæðið telur að þar leynist álíka verðmæti og Noregshafi. Terje Hagevang hjá Sagex Petrolium rifjar þó upp þegar Statoil taldi sig hafa fundið gríðarstóra gaslind við Vestur-Grænland. Þegar borað var niður fannst hins vegar ekkert, allt var þurrt. Í færeyska landgrunninu sé búið að leita í níu ár án þess að nægilega mikið hafi fundist af olíu og gasi fram til þessa. Hann varar Íslendinga við að búast við skyndigróða. Það þýði ekki að halda að þetta sé svo einfalt að menn verði olíuþjóð bara svona allt í einu. Þannig gerist það ekki.

Íslenski olíuverkfræðingurinn Hafsteinn Ágústsson hjá StatoilHydro í Bergen hvetur menn til að spara yfirlýsingarnar. Fara varlega, eins og Norðmenn hafi gert, og gera þetta almennilega og af skynsemi, og sjá svo til hvað verði úr þessu.








Tengdar fréttir

Spáir því að Íslendingar verði olíuþjóð

Íslendingar eiga eftir að verða olíuþjóð, segir helsti sérfræðingur Noregs í Jan Mayen svæðinu, og líkir því við verðmætustu olíusvæði heims. Nýjustu hljóðbylgjumælingar sem gerðar voru á Drekanum í fyrra lofa góðu og mikill áhugi er meðal olíufélaga að kaupa upplýsingarnar.

Olíuskattar Íslands draga úr áhuga á Drekaútboðinu

Áformuð skattheimta íslenskra stjórnvalda af olíuvinnslu hrekur olíufélög frá því að taka þátt í Drekaútboðinu. Þetta segir forstjóri norsks olíufélags sem spáir því að umsækjendur verði teljandi á fingrum annarrar handar þegar fresturinn rennur út þann 15. maí.

Drekinn þarf 70-80 dollara olíuverð

Olíuverð þyrfti að vera milli sjötíu og áttatíu dollarar tunnan og mikil olía að finnast til að menn ráðist í uppbyggingu á Drekasvæðinu, að mati sérfræðinga í Noregi. Minnst átta ár eru í að olíuvinnsla geti verið komin þar á fullt.

Olíuleit skapar störf norðaustanlands

Fjöldi starfa gæti skapast á norðausturhorni Íslands á næstu árum, verði ráðist í olíuleit á Drekasvæðinu. Bara þyrluþjónusta við olíuborpalla kallar á tugi starfsmanna.

Olían lekur upp úr Drekasvæðinu

Gervihnattamyndir benda til þess að olía leki af hafsbotni og til yfirborðs á bletti sunnarlega á Drekasvæðinu. Þetta kom fram á ársfundi Orkustofnunar í Reykjavík í dag. Bresk-hollenskt fyrirtæki, sem sérhæfir sig í olíu- og málmleit með gervihnöttum, fann olíulekann nýlega en hann þykir styrkja vísbendingar um að olíu sé að finna á Drekanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×