Innlent

Bíóferðir kostuðu rúma milljón

Andri Ólafsson skrifar

Ferð Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra og aðstoðarmanns hennar, á kvikmyndahátíð í Kanada nú í september, kostaði ríkið eina komma tvær milljónir króna. Tæp hálf milljón fór í að greiða tvímenningunum dagpeninga.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sótti í byrjun mánaðarins alþjóðlega kvikmyndahátíð í Toronto í Kanada. Ferðin stóð í fimm daga en með ráðherranum í för var aðstoðarmaður hennar Sigtryggur Magnason.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um kostnað við ferðina og í svörum frá ráðuneytinu kom fram að heildarkostnaður ráðuneytisins vegna fimm daga ferðar tvímenningana til Toronto nam einni milljón og tvöhundruð þúsund krónum.

Þar af eru fargjöld 200 þúsund krónur. Hótel 120 þúsundkrónur, Dagpeningar 435 þúsundkrónur og kostnaður við móttöku og kvöldverð 440 þúsund krónur.

Katrín Jakobsdóttir sagði í samtali við fréttastofu í dag að þetta væri mikill kostnaður í ljósi alls þess niðurskurðar sem boðaður hefur verið, meðal annars í menntamálaráðuneytinu. Hún hafi hins vegar farið ferðina sem samstarfsráðherra norrænu ráðherranefndarinnar, þar sem íslendingar gegna formennsku um þessar mundir. Hún hafi svo notað tækifærið til að kynna íslenkar kvikmyndir í leiðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×