Innlent

Viðhald flugvéla eflist með falli krónu

Aldrei fyrr hafa jafnmargir flugvirkjar verið að störfum hérlendis. Viðhaldsskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli hefur ekki undan að sinna verkefnum fyrir erlend flugfélög.

Þota frá rússneska félaginu Jakútsía Airlines í Austur-Síberíu var að koma úr svokallaðri C-skoðun, sem kallaði á fimmþúsund vinnustundir í flugskýlinu, stundir sem greitt er fyrir með erlendum gjaldeyri.

Jens Bjarnason, framkvæmdastjóri tækniþjónustu Icelandair, segir að aldrei hafi verið meira að gera og aldrei fleiri í vinnu, bæði flugvirkjar og annað starfsfólk. Segja megi að þeir hafi ekki undan þeim verkefnum sem fyrirtækið vilji sinna og verkefnastaðan sé góð, inn í framtíðina einnig.

Hér eru 240 manns að störfum, þar af 170 flugvirkjar. Viðhald á sextán þotum Icelandair og dótturfélaga er enn meginverkefnið en nú er svo komið að fjörutíu prósent af starfseminni er vegna þjónustu við erlend flugfélög. Fastir samningar eru við 5-10 erlend félög. Þetta hefur þýtt nýjar starfsstöðvar bæði í Moskvu og Nýju Gíneu en stærstu viðskiptavinir eru félög í Rússlandi, Finnlandi og Nýju Gíneu.

Fall krónunar hjálpar til.

"Það er eins með þetta fyrirtæki og önnur í gjaldeyrisskapandi starfsemi að samkeppnisstaða okkar miðað við erlenda aðila er betri núna," segir Jens.

Starfsþjálfun erlendra flugvirkja er einn liður starfseminnar. Fimm slíkir frá Síberíu eru hér í sjö vikur og segjast kátir með dvölina á Íslandi. Þá er von á flugvirkjun frá Tékklandi í þjálfun.

Í flugstjórnarklefanum var kona að skrúfa saman tækjabúnaðinn. Hrönn Eiríksdóttir flugvirki segir að þær séu þrjár konurnar með sveinspróf í faginu. Það sé ekkert mál fyrir konur að sinna flugvirkjun, þetta sé frábært starf.

Hér er sko enginn krepputónn heldur sjá menn sóknarfæri. Jens Bjarnson segir að þetta sé þekkingariðnaður með hátt reynslu- og þekkingarstig. Í því felist mikil verðmæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×