Innlent

Telur samdráttinn verða minni en spáð var

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Fjármálaráðherra vonast til þess að samdráttur í landsframleiðslu verði undir átta prósentum á þessu ári. Þess í stað gerir hann ráð fyrir áframhaldandi samdrætti á næsta ári. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í upphaflegum áætlunum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gert ráð fyrir að samdrátturinn yrði yfir tíu prósent á árinu, en á fyrri helmingi ársins mældist hann 5,5 prósent.

Fram kom í máli forsætis- og fjármálaráðherra eftir fundinn að þróun atvinnuleysis á þessu ári bendi til þess að dekkstu spár muni ekki rætast á þessu ári. Atvinnuleysið gæti hins vegar aukist í vetur og á næsta ári.

Í fyrrnefndri AGS áætlun var gert ráð fyrir atvinnuleysi upp á rúm 12 prósent á árinu en það mælist nú 7,7 prósent. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði hins vegar áhyggjuefni hve langtímaatvinnuleysi virðist vera að festa sig í sessi. Rúmlega helmingur þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá hafa verið þar í sex mánuði eða lengur.

Tekjuliðir fjárlagafrumvarpsins eru að lokast og beðið er eftir endanlegum drögum að þjóðhagsspá. Útgjaldaramminn liggur fyrir og var festur um síðustu mánaðarmót.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×