Íslenski boltinn

Síðustu sex leikir FH og Keflavíkur hafa unnist á sigurmarki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Rúnarsson skoraði sigurmarkið í leik liðanna í fyrstu umferðinni í sumar.
Hólmar Örn Rúnarsson skoraði sigurmarkið í leik liðanna í fyrstu umferðinni í sumar. Mynd/Valli

Það má örugglega búast við jöfnum og spennandi leik milli FH og Keflavíkur í 12. umferð Pepsi-deildar karla á Kaplakrikavellinum klukkan 16.00 í dag. Keflavík er eina íslenska liðið sem hefur unnið FH í sumar og undanfarin þrjú sumur hafa allir leikir liðanna ráðist á einu marki.

Það má svo sannarlega segja að úrslitin hafi ráðist á síðustu stundu í mörgum þessara leikja því þrjú af þessum sex sigurmörkum hafa verið skoruð á 90. mínútu þar af eitt þeirra í uppbótartíma.

FH hefur unnið síðustu þrjá heimaleiki sína á móti Keflavík á sigurmarki á síðustu sextán mínútum leikjanna og tvö af þremur sigurmörkum Keflavíkur á móti FH síðustu þrjú sumur hafa komið á 90. mínútu.

Þrír mismunandi leikmenn FH hafa skorað sigurmark þeirra í þessum leikjum en eitt eiga þau þó sameiginlegt að Tryggvi Guðmundsson hefur átt stoðsendinguna í þeim öllum.

Keflvíkingurinn Hólmar Örn Rúnarsson hefur átt þátt í öllum þremur sigurmörkum Keflavíkur á móti FH í þessum leikjum. Hólmar skoraði sigurmarkið í leik liðanna í 1. umferð í ár en hafði síðan lagt upp sigurmörk Keflavíkur-liðsins í heimaleikjunum 2008 og 2007.

Sigurmörkin í síðustu sex innbyrðisleikjum FH og Keflavíkur í úrvalsdeildinni

11. maí 2009 Keflavík-FH 1-0

Hólmar Örn Rúnarsson skoraði sigurmark Keflavíkur á 54. mínútu

21. september 2008 FH-Keflavík 3-2

Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmark FH á 90. mínútu

6. júlí 2008 Keflavík-FH 1-0

Magnús Þorsteinsson skoraði sigurmark Keflavíkur á 90. mínútu (2. mínútu uppbótartíma)

28. júlí 2007 FH-Keflavík 3-2

Freyr Bjarnason skoraði sigurmark FH á 74. mínútu

20. maí 2007 Keflavík-FH 1-2

Matthías Guðmundsson skoraði sigurmark FH á 80. mínútu

20. ágúst 2006 Keflavík-FH 2-1

Baldur Sigurðsson skoraði sigurmark Keflavíkur á 90. mínútu












Fleiri fréttir

Sjá meira


×