Innlent

Gylfi þegir um áskorun um afsögn

Stjórnarmaður VR skorar í opnu bréfi á Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, að segja af sér vegna stjórnarsetu sinnar í fjárfestingarfélagi í Lúxemborg sem var stofnað í gegnum tvö skúffufélög á Tortola. Gylfi segist ekki hafa lesið bréfið.

Fréttastofa greindi frá því að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hafi setið í stjórn fjárfestingarfélagsins Motivation Investment Holding í Lúxemborg sem var stofnað í gegnum tvö skúffufélög í skattaparadísinni Tortola. Félagið var stofnað árið 2000 en þá gegndi Gylfi stöðu framkvæmdastjóra eignarhaldsfélags Alþýðubankans. Ágúst Guðbjartsson, stjórnarmaður í VR, skrifaði opið bréf til Gylfa af þessu tilefni og gagnrýnir stjórnarsetu hans harðlega.

„Mér finnst náttúrlega ótækt að helsti talsmaður launþega sitji í stjórn skúffufyrirtækis. Þetta fyrirtæki er stofnað fyrir utan landsteinanna væntanlega með það að markmiðið að greiða ekki gjöld til samfélagins. Ef við erum að fara að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag þá þurfum við að geta treyst að forseti ASÍ sitji réttum megin við borið," Ágúst.

Gylfi sagði í samtali við fréttastofu að það hafi aldrei verið starfsemi í félaginu og að hann hafi ekki vitað að Tortola hafi blandast inn í stofnun félagsins.

Ágúst segir að Gylfi hafi átt að vera búinn að upplýsa um setu sína í stjórn fyrirtækisins en ekki bíða eftir að aðrir myndu benda á þá staðreynd. Hann vill að Gylfi segi af sér fyrir þing ASÍ í október.

Fréttastofa leitaði eftir viðbrögðum hjá Gylfa en hann sagðist ekki hafa lesið bréfið og hefði því ekkert um málið að segja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×