Innlent

Þúsundasti bæjarstjórnarfundurinn

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Frá fundi bæjarstjórnar Kópavogs í júní sl.
Frá fundi bæjarstjórnar Kópavogs í júní sl.
Þúsundasti fundur bæjarstjórnar Kópavogs verður haldinn í dag. Bæjarstjórinn segir að lítið verði um hátíðarhöld. Þess í stað muni bæjarstjórnin í tilefni tímamótanna láta pening af hendi rakna til góðgerðamála.

Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn var haldinn í október 1955, tæpu hálfu ári eftir að Kópavogur fékk kaupstaðarréttindi.

„Við ætlum ekki að gera neitt stórkostlegt. Við bjóðum fyrrverandi bæjarfulltrúum í móttöku eftir bæjarstjórnarfundinn sem verður lítil og látlaus. Meginmálið er að við ætlum að reyna að láta gott af okkur að leiða á táknrænan hátt," segir Gunnsteinn Sigurðsson bæjarstjóri Kópavogs. Tilkynnt verði síðar í dag um styrk bæjarfélagsins sem mun renna til góðgerðamála.

Bæjarstjórinn Gunnsteinn Sigurðsson.Mynd/Stefán Karlsson
Bæjarstjórinn segir að um viss tímamót í sögu Kópavogs sé að ræða. Sjálfur kveðst Gunnsteinn hafa setið rúmlega 180 bæjarstjórnarfundi frá því að hann kjörinn bæjarfulltrúi árið 2002. Spurður hvort að fundirnir hafi allir verið skemmtilegir segir bæjarstjórinn: „Bæjarstjórnarfundir eru hver með sínu sniði. Oft eru þetta líflegir og skemmtilegir fundir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×