Íslenski boltinn

Magnús Gylfason spáir í spilin fyrir leiki kvöldsins

Magnús spáir að KR muni fara fýluferð til Grindavíkur í kvöld
Magnús spáir að KR muni fara fýluferð til Grindavíkur í kvöld

Annari umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu lýkur í kvöld með fimm leikjum. Vísir fékk Magnús Gylfason sérfræðing Stöðvar 2 til að spá í spilin fyrir leiki kvöldsins.

Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15 nema hvað leikur Fylkis og Keflavíkur hefst klukkan 20 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þá verða Pepsimörkin á sínum stað klukkan 22:00.

Áhugavert verður að sjá hvað stórliðin FH og Valur gera í kvöld eftir töp í fyrstu umferðinni og þá verða eflaust margir með annað augað á leiknum í Grindavík þar sem KR-ingar koma í heimsókn.

En skoðum hvað Magnús hafði að segja um leikina í kvöld.

19:15 Valur - Fjölnir (Vodafonevöllurinn)



"Ég hugsa að Valur vinni þennan leik 2-0. Valsmenn eru komnir á heimavöllinn eftir að hafa tapað á Fylkisvellinum og ég held að þeir verði bara að vinna í kvöld. Fjölnismenn sýndu það á KR-vellinum að þeir eru með ágætt lið, en ég held að Valsmenn séu of sterkir fyrir þá."

19:15 FH - Fram (Kaplakrikavöllur)

"Þarna er það sama uppi á teningnum og hjá Valsliðinu. Það var ákveðin brotlending fyrir FH að tapa fyrsta leik, enda hefur liðið ekki tapað fyrsta leik í mörg ár. FH hefur stundum gengið erfiðlega með Fram en ég held að þeir komi alveg ljóngrimmir á heimavöllinn í kvöld og vinni 2-0 sigur."

19:15 Þróttur R. - Stjarnan (Valbjarnarvöllur)

"Þessi leikur er dálítið spurningamerki. Stjarnan er á toppnum eftir góðan sigur í fyrstu umferðinni og byrjar vel eins og oft með lið sem spáð er falli. Ég spái því að þetta verði 1-1 jafntefli. Þetta verður barningur þar sem bæði lið vilja stig. Ég trúi því að Stjarnan nái að nýta sér stemminguna úr síðasta leik og ná jafntefli. Mér finnast Þróttararnir samt líklegri."

19:15 Grindavík - KR (Grindavíkurvöllur)

"Grindvíkingarnir hafa verið dálítið upp og ofan. Þeim var spáð slæmu gengi í fyrra en náðu fínum árangri, en í ár var þeim spáð ágætu gengi en byrjuðu á tapi. Ég held að Grindvíkingarnir taki sig saman í andlitinu og vinni 1-0 sigur þrátt fyrir að KR sé með ágætt lið."

20:00 Fylkir - Keflavík (Fylkisvöllur)

"Bæði þessi lið unnu góða sigra á heimavelli í fyrstu umferð. Þetta verður hörkuleikur sem fer 2-2. Fylkir kemur með svipaða stemmingu og var í síðasta leik og mikla baráttu eins og liðin hans Óla gera venjulega. Keflavík er hinsvegar með hörkugott byrjunarlið og ég held að þetta verði jafn og skemmtilegur leikur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×