Innlent

Bensínafgreiðslumaður ærðist

 Maðurinn fær ekki vinnu aftur á Olís eftir berserksganginn. Myndin er úr safni.Fréttablaðið / daníel
Maðurinn fær ekki vinnu aftur á Olís eftir berserksganginn. Myndin er úr safni.Fréttablaðið / daníel

Lögreglumál „Hann var alveg viti sínu fjær,“ segir yfirmaður bensínafgreiðslumanns Olís í Norðlingaholti sem ærðist við störf í gær. Hann veittist að viðskiptavinum bensínstöðvarinnar og samstarfsmönnum sínum og var að lokum færður burt í járnum.

Ekki liggur fyrir hvað kom yfir manninn, sem er á þrítugsaldri og af erlendum uppruna. Að sögn sjónarvotts virðist sem kveikjan hafi verið þegar starfsmaðurinn sakaði hjón sem biðu eftir afgreiðslu um að ætla að stela bensíni. Átök brut­ust út í kjölfarið.

Aðrir viðskiptavinir og samstarfsmenn mannsins brugðust við og reyndu að hemja hann með litlum árangri. Hillur með sælgæti og mynddiskum brotnuðu í átökunum og dreifðust um allt gólf. Lögregla var að lokum kvödd til og handtók hún manninn.

„Þetta var auðvitað afskaplega óeðlileg hegðun sem maðurinn sýndi af sér,“ segir Jón Halldórsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Olís. „Það er alveg á hreinu að hann er ekki velkominn í vinnu hjá okkur aftur,“ segir Jón en tekur þó fram að starfsmaðurinn hafi verið dagfarsprúður og ágætur starfsmaður. Þetta hafi komið öllum mjög á óvart. Mestu skipti að enginn hafi meiðst.

Einn þeirra sem lentu í átökum við manninn í gær hafði samband við Fréttablaðið og sagðist myndu verða sér úti um áverkavottorð á slysadeild og kæra árásina. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×