Innlent

Skatttekjur borgarinnar dragast saman um milljarða

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Áætlanir Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir skatttekjur lækki um rúmlega 6% eða tæplega 2,5 milljarða króna, fjármagnstekjur lækki um 1,3 milljarða og velferðarútgjöld aukist um tæplega 2 milljarða króna. Reynt verður að forgangsraða í þágu grunnþjónustu, barna og velferðar.

Á fundi borgarráðs í dag voru lagðar fram forsendur fyrir fjárhagsáætlunargerð borgarinnar fyrir árið 2010. Jafnframt var úthlutað fjárhagsramma fyrir einstök fagsvið. Í tilkynningu frá borginni segir að í forsendum fjárhagsáætlunar geri Reykjavíkurborg ráð fyrir svipaðri þróun atvinnu- og efnahagsmála og Seðlabanki Íslands og almennri lækkun tekna og hækkun velferðarútgjalda.

Til að mæta þessum breytingum mun borgin þurfa að draga saman í rekstarútgjöldum um rúmlega 6% á komandi fjárhagsári. „Við ákvörðun fjárhagsramma til einstakra málaflokka var forgangsraðað í þágu grunnþjónustu, barna og velferðarmála í samræmi við aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var samhljóða í borgarstjórn sl. haust," segir í tilkynningunni.

Minni krafa er gerð um hagræðingu á Menntasviði, Leikskólasviði og Íþrótta- og tómstundasviði heldur en á Framkvæmda- og eignasviði, Skipulags- og byggingasviði og Umhverfis- og samgöngusviði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×