Íslenski boltinn

Magnús: Það verður flug á okkur í seinni umferðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingurinn Magnús Þorsteinsson.
Keflvíkingurinn Magnús Þorsteinsson. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson

Magnús Þorsteinsson tryggði Keflavík jafntefli á móti FH á Kaplakrikavelli í dag með því að skora jöfnunarmarkið í lok leiksins. Þetta var fjórða mark hans í síðustu fjórum leikjum á móti FH.

„Ég er mjög ánægður með þetta mark og það var ágætt að það skilaði okkur stigi. Það er gaman að fara taplausir héðan úr Krikanum," sagði Magnús Þorsteinsson, hetja Keflavíkur.

„Mér leiðist ekki að skora og þá sérstaklega í þessum stóru leikjum. Það er alltaf gaman að skipta máli í stóru leikjunum," sagði Magnús en Keflavík átti samt lengi í vök að verjast í leiknum.

„Ég verða að vera hreinskilinn með það að FH var betra liðið í þessum leik. Þeir fengu fleiri færi en það eru mörkin sem telja," Magnús.

„Við byrjuðum þetta skelfilega illa en komum okkur inn í leikinn í lok fyrri hálfleiks og hefðum getað verið með meira forskot eftir að hafa fengið tvö til þrjú dauðafæri í lok hálfleiksins. Við komum aftur mjög slakir inn í seinni hálfleikinn og þetta lifnaði ekki aftur við hjá okkur fyrr en síðasta korterið," sagði Magnús.

Magnús skoraði jöfnunarmarkið eftir stoðsendingu frá Símun Samuelsen en þeir voru báðir stórhættulegir í sóknum Keflavíkur í leiknum. „Við Símun viljum báðir fá boltann en við fengum bara og lítið af honum í seinni hálfleik og þess vegna vorum við ekki að ógna þeim nóg. Það breyttist í lokin þar sem við vorum frískir og náðum sem betur fer að jafna þetta," sagði Magnús sem lýst mjög vel á framhaldið.

„Við erum í bullandi baráttu um að tryggja okkur Evrópusæti. Við ætlum að byrja á því að halda okkur í þeim pakka. Bógi (Hólmar Örn Rúnarsson) er að koma inn í þetta svo vonandi bætist Guðmundur Steinarsson inn í þetta fljótlega. Ég held að við séum að endurheimta okkar sterkasta lið og það verði bara flug á okkur í seinni umferðinni," sagði Magnús að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×