Íslenski boltinn

Rúrik: Auðvelt að segja eitthvað sem getur sært

Elvar Geir Magnússon skrifar
Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason.

Rúrik Gíslason fékk tvöfaldan sigur í dag. Félagar hans í U21 landsliðinu unnu Norður-Írland í dag og svo átti Rúrik fínan leik fyrir A-landsliðið þegar það lagði Suður-Afríku að velli í kvöld.

„Já þetta eru frábær tíðindi. Við erum enn í baráttunni í þessum U21 riðli og erum til alls líklegir. Svo unnum við þennan leik í kvöld og það er alltaf gaman að vinna leik, sérstaklega á heimavelli," sagði Rúrik.

Rúrik gat ekki leikið þennan mikilvæga leik með U21 landsliðinu í dag þar sem hann lék æfingaleik með A-landsliðinu. Um daginn var það einmitt öfugt en þá fékk Rúrik frí frá æfingaleik A-landsliðsins til að spila með U21 landsliðinu. Ef Rúrik fengi sjálfur að velja, hvað myndi hann gera?

„Mér finnst erfitt að svara þessari spurningu því ég vill bara spila fyrir Ísland og vil ekki gera upp á milli. Það er auðvelt að segja eitthvað sem getur sært," sagði Rúrik.

En hvað segir hann um þetta lið sem við mættum í dag. „Þeir héldu boltanum ágætlega en á móti kemur að þeir sköpuðu engin dauðafæri. Við vörðumst vel og vorum þolinmóðir en á köflum vorum við að spila boltanum frá okkur full auðveldlega."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×