Erlent

Áframhaldandi spenna í Íran

æðstu leiðtogar Ayatollah Ali Khamenei hélt ræðu í Teheran í gær og Ahmadinejad forseti og aðrir embættismenn sátu við hlið hans.
æðstu leiðtogar Ayatollah Ali Khamenei hélt ræðu í Teheran í gær og Ahmadinejad forseti og aðrir embættismenn sátu við hlið hans. fréttablaðið/ap
Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, varaði stjórnarandstöðu landsins í gær við því að halda áfram mótstöðu sinni. Viðvörunin kom í kjölfar þess að fyrrverandi forseti Írans, Mohammad Khatami, kallaði eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lögmæti ríkis­stjórnarinnar. Það sé eina leiðin út úr því ástandi sem nú ríki í landinu.

Khatami gagnrýndi klerkastjórnina óbeint með því að segja að óháðir aðilar, sem almenningur gæti treyst, yrði að annast slíka kosningu. Klerkastjórnin hafði umsjón með forsetakosningunum.

Annar fyrrum forseti, Akbar Hashemi Rafsanjani, hefur gagnrýnt æðsta leiðtogann og forsetann. Á föstudag krafðist hann þess að öllum þeim sem voru handteknir í mótmælum eftir forsetakosningarnar yrði sleppt.

Rafsanjani er hátt settur meðal æðstu klerka landsins og stuðningur hans því mikilvægur fyrir stjórnarandstöðuna. Leiðtogi hennar, Mir Hossein Mousavi, lét hörð orð falla í garð stjórnarinnar og Khamenei sjálfs í gær.

Hann sagði að íranska þjóðin hefði verið móðguð með ásökunum um að mótmælin eftir forsetakosningarnar í landinu hefðu verið skipulögð af útlendingum. Þá sagði hann klerkastjórnina nú þurfa að takast á við nýjan hlut; þjóð sem hefði verið vakin og ætlaði að verja afrek sín. - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×