Innlent

Skiptum ekki um stefnu eftir fréttum

Lent í borginni Fyrir síðustu kosningar voru uppi ýmsar hugmyndir um að flugvöllurinn yrði færður. Hólmsheiði og Löngusker voru nefnd sem kostir. Aðrir telja að færa ætti umferðina yfir á Keflavíkurflugvöll eða hafa flugvöllinn í miðbænum áfram.fréttablaðið/vilhlem
Lent í borginni Fyrir síðustu kosningar voru uppi ýmsar hugmyndir um að flugvöllurinn yrði færður. Hólmsheiði og Löngusker voru nefnd sem kostir. Aðrir telja að færa ætti umferðina yfir á Keflavíkurflugvöll eða hafa flugvöllinn í miðbænum áfram.fréttablaðið/vilhlem

Samkomulag ríkis og borgar um samgöngumiðstöð er í fullu gildi og öll umræða síðustu daga um hugsanlegar breytingar á því er að frumkvæði samgönguráðuneytis.

Borgin hefur á engan hátt breytt um stefnu í þeim efnum.

Svo segir Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og oddviti Framsóknar. Hann segist ekki hafa svo mikið sem hugleitt að breyta aðalskipulagi borgarinnar í ljósi þessara nýju áherslna samgönguráðherra.

„Við erum að vinna á fullu eftir þessu samkomulagi og það hefur ekki breyst. Ef ráðherra vill breyta þessu verður hann að gera það með formlegum hætti. Við skiptum ekki um stefnu bara eftir frétt á forsíðu Fréttablaðsins,“ segir Óskar.

Í blaðinu hefur komið fram að samgönguráðherra og formanni skipulagsráðs líst báðum vel á að byggja litla flugstöð rétt hjá núverandi flugstöð, sem yrði rifin, í stað fyrirhugaðrar samgöngumiðstöðvar. Umferðarmiðstöðin stæði enn sem fyrr.

Óskar segir ummæli Júlíusar Vífils Ingvarssonar, formanns skipulagsráðs, benda til að Júlíus taki vel á móti samgönguráðuneytinu eins og öðrum. „En mér finnst engin ástæða til að gera meira úr því en efni standa til. Þótt menn taki vel á móti fólki þýðir það ekki að það sé stefnubreyting hjá borginni.“

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, hefur sagt að borgin sé í ár að eyða 450 milljónum vegna Hlíðarfótarlóðar, þar sem samgöngumiðstöð átti að vera. Um þetta segir Óskar:

„Þessi ábending frá Degi um að borgin hafi lagt fé til framkvæmda við Hlíðarfót staðfestir að Reykjavíkurborg hefur verið að vinna samkvæmt þessu samkomulagi við samgönguyfirvöld. Þessi fjárfesting tengist fleiri þáttum en ég er ekki viss um að við hefðum ráðist í hana nema vegna þessa samkomulags.“

Spurður hvort slík stefnubreyting frá ráðherra væri ekki bagaleg á þessu stigi fyrir borgina endurtekur Óskar að enn hafi engin formleg beiðni borist frá Kristjáni L. Möller:

„Við vinnum enn eftir minnisblaði sem við gerðum við þennan tiltekna samgönguráðherra í vor,“ segir formaður borgarráðs.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, er þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að skoða betur að endurbyggja núverandi flugstöð. klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×