Enski boltinn

Guðjón leggur línurnar í agamálum

Leikmenn Crewe komast ekki upp með neitt múður hjá Guðjóni
Leikmenn Crewe komast ekki upp með neitt múður hjá Guðjóni NordicPhotos/GettyImages

Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe, hefur sent leikmönnum sínum skýr skilaboð með því að setja einn sinn besta mann út úr liðinu fyrir agaleysi.

Breskir fjölmiðlar gera sér mat úr því að Guðjón hafi sett norður-írska landsliðsmanninn Michael O´Connor út úr liðinu fyrir að mæta of seint á liðsfund fyrir leik.

O´Connor er efnilegasti leikmaður Crewe að mati Crewe Chronicle en hann er nú að kynnast þeim stranga aga sem Guðjón er að koma á í herbúðum liðsins eftir því sem fram kemur í blaðinu.

"Dugnaður, samviskusemi og vilji hafa alltaf verið hátt á listanum hjá mér bæði sem leikmaður og knattspyrnustjóri. Allt byrjar þetta með aga innan sem utan vallar. Ég er hérna til að hjálpa leikmönnunum að hjálpa sér sjálfum, en ef menn kaupa það ekki - get ég ekki hjálpað þeim og þá eigum við ekki samleið," sagði Guðjón í samtali við Chronicle.

"Við munum komast að því hvaða menn vilja spila fyrir mig. Margir leikmenn vilja verða góðir knattspyrnumenn en eru ekki tilbúnir að gera það sem til þarf," var m.a. haft eftir Skagamanninum.

Kantmaðurinn Joel Grant hjá Crewe er búinn að ná því hvað þarf að gera til að koma sér í náðina hjá stjóranum íslenska.

"Stjórinn leggur mikið upp úr vinnusemi leikmanna. Menn verða að gera það sem stjórinn segir þeim að gera. Ef menn gera það ekki - þá spila þeir ekki. Það er svo einfalt," sagði Grant.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×