Fótbolti

Rak alla leikmennina útaf með rautt spjald

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rauða spjaldið fór 18 sinnum á loft á einu bretti.
Rauða spjaldið fór 18 sinnum á loft á einu bretti. Mynd/AFP

Fótboltaleikirnir í Suður-Ameríku eru margir hverjir afar skrautlegir enda ástríðan og skapofsinn þar á bæ engu öðru lík. Nú síðast varð dómari leiks í Argentínu að grípa til afar róttækra aðferða þegar annað liðið lenti í slagsmálum við stuðningsmenn andstæðinganna.

Lið Barracas Bolivar og General Lamadrid mættust þarna í argentínsku C-deildinni og staðan var 3-0 fyrir heimamenn í Barracas Bolivar þegar allt varð vitlaust á 60 mínútu leiksins.

Þetta byrjaði allt þegar upp úr sauð á milli þriggja leikmanna General Lamadrid og stuðningsmanna Bolivar. Starfsmenn útiliðsins voru líka með í rifildinu sem breyttist fljótt í slagsmál og áður en menn vissu af var allt Bolivar-liðið komið til að verja félaga sína.

Dómari leiksins greip til þess að gefa öllum leikmönnum og varamönnum General Lamadrid rauða spjaldið fyrir að stofna til slagsmála við áhorfendur. Hann gaf því 18 rauð spjöld á einu bretti.

Það er ekki nóg með að dómarinn þurfti að sjálfsögðu að flauta leikinn af heldur þarf General Lamadrid liðið að nota varaliðið í næsta leik því allir 18 leikmenn þess eru komnir í eins leiks bann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×