Erlent

Kona í Texas lét bílinn fyrir geitur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þessi mynd tengist fréttinni ekki en hún er af geit í Alabama sem klifraði upp á bíl og var „handtekin“ af lögreglu fyrir vikið.
Þessi mynd tengist fréttinni ekki en hún er af geit í Alabama sem klifraði upp á bíl og var „handtekin“ af lögreglu fyrir vikið.

Miranda Walton í Austin í Texas fer ekki í geitarhús að leita ullar. Síður en svo. Hún skipti á gamla Ford-pallbílnum sínum og nokkrum geitum og fær nú úr þeim alla mjólk til heimilisins en ekki er nóg með það. Samkvæmt lögum Texas fær Walton líka skattaafslátt þar sem hún notar landareign sína undir búpening en slíkt er frádráttarbært til skatts.

Engir peningar verða þó beinlínis til af þessum landbúnaði hennar en þetta er einmitt það sem fjöldi Ameríkana er farinn að stunda, ekki geitarækt endilega, en alls konar hagnýtar sparnaðaraðgerðir nú þegar skórinn kreppir sem aldrei fyrr.

Stórir hópar fólks, sem fram að þessu hafa haft allt annað en græna fingur, rækta nú allt sitt grænmeti sjálfir í bakgarðinum og gríðarleg aðsókn er skyndilega í gönguhóp hjá grasafræðingi í New York sem fylgir fólki um almenningsgarða og fræðir um hvaða plöntur má leggja sér til munns án þess að hljóta varanlegan skaða af.

Þá er hópur háskólanema í New York kominn í svokallaða „freegans"-hreyfingu en það er fólk sem eyðir ekki krónu í mat heldur finnur hann í ruslagámum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×