Innlent

Erlendir hönnuðir sniðgengu Icelandic Fashion Week

Tískukvöld á Nasa. Mynd/Eduardo Carneiro
Tískukvöld á Nasa. Mynd/Eduardo Carneiro

Klofningur varð á milli tískuhönnuða sem áttu að koma fram á Icelandic Fashion Week um helgina í Reykjanesbæ á Ljósanótt og skipuleggjanda kvöldsins.

Bandaríski tískuhönnuðurinn Daria Shapiro sendi fréttatilkynningu á Vísi vegna klofnings sem varð á milli þrettán hönnuða og skipuleggjanda viðburðarins, Kolbrúnar Aðalsteinsdóttur.

Í tilkynningunni fullyrðir Daria að Kolbrún hafi hringt á lögregluna og sakað einn hönnuðinn um ætla að stefna lífi fyrirsætna í hættu þegar hönnuðurinn var ósáttur við svið Kolbrúnar. Hönnuðurinn vildi að fyrirsæturnar sýndu fötin í klettagarði nálægt höfninni í Reykjanesbæ. Lögreglan mun hafa komið á vettvang en samkvæmt tilkynningu Daria hafi þeir ekki séð ástæðu til þess að aðhafast neitt í málinu við nánari eftirgrennslan.

Tískusýning. Mynd/Eduardo Carneiro

Engu að síður brugðust hönnuðir mjög illa við aðstæðunum sem þeir vildu meina að væru verulega ófullnægjandi sem varð til þess að þeir slitu samstarfinu og settu upp eigin tískusýningu á tónleikastaðnum NASA. Sýninguna nefndu þeir The Rebel Fashun. Hún var haldin sama kvöld og þeir áttu að sýna hönnun sína fyrir gest og gangandi í Reykjanesbæ.

Hönnuðirnir eru afar ósáttir við Kolbrúnu samkvæmt tilkynningunni sem Daria sendi frá sér auk Daniels Lockharts.

Tilkynninguna má lesa í viðhengi hér fyrir neðan auk þess sem sjá má myndir frá The Rebel Fashun-kvöldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×