Erlent

Al Kaída og Baath kennt um

Bandarískir hermenn á vettvangi einnar sprengjuárásarinnar í Bagdad.nordicphotos/AFP
Bandarískir hermenn á vettvangi einnar sprengjuárásarinnar í Bagdad.nordicphotos/AFP

Á annað hundrað manns fórust í fimm sprengjuárásum í Bagdad í gærmorgun. Hundruð manna særðust.

Talsmaður írakska hersins segir árásirnar runnar undan rifjum Al Kaída og meðlima í Baath-flokknum, sem var stjórnarflokkur Saddams Hussein en hefur verið bannaður árum saman.

Tvær árásanna voru sjálfsvígsárásir. Allar beindust þær að byggingum stjórnvalda, þar á meðal eftirlitsstöð lögreglu. Þetta er í þriðja sinn frá því í ágúst sem uppreisnarmenn gera samhæfðar árásir á opinberar byggingar með miklu blóðbaði.

Árásirnar þykja sýna fram á veikleika í öryggismálum Íraks. Þing landsins var kallað saman til neyðarfundar og kröfðust þingmenn skýringa á því sem ábótavant þykir í öryggismálum.

Þrátt fyrir að uppreisnarmenn hafi hert árásir sínar á stjórnarbyggingar síðustu mánuði hefur dregið úr mannfalli í Írak undanfarið ár.

Þann 25 október voru gerðar svipaðar árásir í Bagdad, sem kostuðu að minnsta kosti 155 manns lífið, og í ágúst gerðu sjálfsvígsmenn árásir á tvö ráðuneyti með þeim afleiðingum að hundrað manns fórust.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×