Innlent

Óeirðadeildin fullmönnuð

Mikið mæddi á óeirðadeild lögreglunnar í búsáhaldabyltingunni í vetur.
Fréttablaðið/Anton
Mikið mæddi á óeirðadeild lögreglunnar í búsáhaldabyltingunni í vetur. Fréttablaðið/Anton

Flestir þeir lögreglumenn sem ákváðu að ganga úr óeirðadeild lögreglu í síðasta mánuði hafa nú gengið til liðs við hópinn á ný.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins töldu lögreglumennirnir sig hafa komið óánægju sinni á framfæri með því að hætta í mannfjöldastjórnunarhópi lögreglu, svokallaðri óeirðadeild. Því myndi ekkert frekar vinnast með því að halda sig utan við hópinn áfram.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir mannfjöldastjórnunarhóp embættisins fullmannaðan. Hann segir að sér hafi aldrei borist neinar sérstakar upplýsingar um að lögreglumenn vildu ekki starfa að mannfjöldastjórnun. Af því leiði að hann hafi ekki fengið upplýsingar um að þessar aðgerðir hafi verið dregnar til baka.

Mannfjöldastjórnun er eitt af verkefnum lögreglu sem allir lögreglumenn gætu þurft að sinna. Sumir lögreglumenn hafa þó hlotið sérstaka þjálfun til að sinna slíkum verkefnum, og hafa fengið til þess búnað á borð við hjálma, skildi og fleira.

Hluti þeirra lögreglumanna sem hlotið hafa slíka þjálfun lítur svo á að þar sem þeir hafi fengið að velja hvort þeir tækju þátt í starfi mannfjöldastjórnunarhópsins sé þeim jafnframt frjálst að hætta þátttöku í honum sýnist þeim svo.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×