Enski boltinn

Pardew bar enga virðingu fyrir Eggerti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Magnússon og Alan Pardew skömmu eftir yfirtöku Íslendinganna á West Ham.
Eggert Magnússon og Alan Pardew skömmu eftir yfirtöku Íslendinganna á West Ham. Nordic Photos / AFP

Alan Pardew, fyrrum knattspyrnustjóri West Ham, segir að það besta sem gat komið fyrir West Ham var að Eggert Magnússon skyldi hætta sem stjórnarformaður félagsins.

Pardew var í viðtali hjá Sky-sjónvarpsstöðinni en hann var rekinn sem knattspyrnustjóri West Ham nokkrum mánuðum eftir að Björgólfur Guðmundsson keypti félagið í samstarfi við Eggert sem tók við stöðu stjórnarformanns.

Pardew sagði að samband hans við Eggert hafi verið lítið sem ekkert og að hann hafi haft óraunhæfar væntingar og hugmyndir um leikmannakaup.

„Vandamálið hjá West Ham var að þegar Eggert kom inn í félagið. Ég bar enga virðingu fyrir honum og átti ekkert samband við hann," sagði Pardew.

„Hann sýndi mér litla virðingu. Hann vildi kaupa leikmenn í átta mismunandi leikstöður en þegar ég ræddi við hann í fyrsta skipti sagði ég honum að ég þyrfti ekki á svo mörgum mönnum að halda."

„Hann vildi kaupa allan heiminn. Mér fannst hann vera svolítið barnalegur og það besta sem gat komið fyrir West Ham var að hann fór. Mér finnst hreinlega að hann hafi ekki borið skilning á því hvernig þessir hlutir virkuðu."

Pardew sagði enn fremur að yfirtaka Íslendinganna á West Ham hafi meðal annars orðið til þess að liðið átti í mikilli fallbaráttu það tímabilið.

„Við vorum á okkar öðru ári í úrvalsdeildinni sem er alltaf erfitt. Yfirtakan olli miklum usla enda margir sem urðu þá óöruggir um eigið starfsöryggi."

Pardew sagði enn fremur að koma þeirra Carlos Tevez og Javier Mascherano hafi líka valdið sér vanda. Pardew fannst að liðið vantaði leikmenn í aðrar stöður á þeim tímapunkti.

„Ég ætlaði samt ekki að hafna tækifæri að þjálfa tvo leikmenn sem ég hafði horft á í heimsmeistarakeppninni fyrr um sumarið."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×