Enski boltinn

Nú gagnrýnir Benitez framkvæmdarstjóra United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool.
Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekki hættur í gagnrýni sinni á Manchester United. Nú segir hann stöðu David Gill framkvæmdarstjóra vafasama.

Í síðustu viku sagði Benitez að Ferguson fengi sérmeðferð hjá yfirvöldum í ensku úrvalsdeildinni og hann gagnrýnir nú að Gill sé í stjórn enska knattspyrnusambandsins.

„Þeir hafa verið að segja að við séum engin ógn í þeirra augum," sagði Benitez í samtali við enska fjölmiðla. „En núna vitum við að þeir líta ekki þannig á málið þar sem þeir eru byrjaðir að stunda sálfræðihernað."

„En það er erfitt að líta á þetta sem sálfræðihernað þegar að maður stjórnar öllu. Þetta er ekki sálfræðistríð nema að báðir aðilar standi jafnfætis - þannig er hægt að sýna að maður sé klárari en hinn aðilinn."

„En þegar að maður stjórnar öllu og framkvæmdarstjórinn þinn er valdamikill í enska knattspyrnusambandinu og fleira í þeim dúr er staðreyndin sú að þetta er ekki sálfræðihernaður."

„Þetta er enn ein staðreyndin í þessu máli. Staðreyndin er sú að einn maður hefur mikil völd og situr í mörgum nefndum fyrir sambandið. Mér finnst það afar einkennilegt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×