Enski boltinn

Kinnear boðinn langtímasamningur hjá Newcastle

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Kinnear, stjóri Newcastle.
Joe Kinnear, stjóri Newcastle. Nordic Photos / Getty Images

Stjórn Newcastle hefur ákveðið að bjóða Joe Kinnear, knattspyrnustjóra liðsins, langtímasamning en núverandi samningur hans rennur út í lok tímabilsins.

Kinnear var ráðinn tímabundið í haust eftir að Kevin Keegan sagði starfi sínu lausu eftir deilur við Mike Ashley, eiganda Newcastle. Stuðningsmenn liðsins mótmæltu mjög hvernig Ashley væri að reka félagið og ákvað hann því að reyna að selja það.

Kinnear var fyrst um sinn ráðinn í einn mánuð í senn en svo í síðasta mánuði, þegar ekkert gekk að selja félagið, var Kinnear ráðinn til loka tímabilsins. Síðan þá hefur Ashley hætt við að selja Newcastle og boðið nú Kinnear langtímasamning.

„Ég hef fengið mjög gott samningstilboð og er að velta þessu öllu fyrir mér," sagði Kinnear í samtali við enska fjölmiðla.

„Mike Ashley, Derek Llambias (framkvæmdarstjóri) og ég höfum fundað og rætt hvernig mætti bæta félagið í framtíðinni og fá meiri pening inn í það næsta sumar. En ég sagði þeim að fyrst og fremst þyrfti félagið að sanna sig sem alvöru úrvalsdeildarlið og losna við fallbaráttuna fyrir fullt og allt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×