Erlent

Minnst fimmtíu drepnir í Gíneu

Mótmælendum misþyrmt.
Mótmælendum misþyrmt.

Hermenn hafa myrt yfir fimmtíu manns í vestur afríska ríkinu Gíneu í dag. Fimmtíu þúsund manns kom saman á fótboltavelli í höfuðborginni og mótmæltu framboði Moussa „Dadis" Camara.

Hann er foringi hersins en hann framdi valdarán þegar einræðisherrann Lansana Conte lést. Dadis Camara hafði áður gefið út að hann myndi ekki bjóða sig fram. Honum snérist síðan hugur.

Í kjölfarið komu fimmtíu þúsund manns saman á fótboltavelli í höfuðborg Gíneu. Mótmælendur krefjast raunverulegs lýðræðis en með framboði Dadis óttast almenningur að það sé ekki möguleiki á lýðræðislegum kosningum.

Hermenn Dadis fóru inn á fótboltavöllinn og köstuðu táragasi og skutu svo mótmælendur.

Læknir sagði í viðtali við fréttastofu AFP að 58 manns hafi látist í átökunum. Sjálfur hafi hann talið 52 látna einstaklinga. Annar læknir segir í viðtali við AFP að hertrukkar taki upp lík mótmælanda og keyri þau á óþekktan stað. Því er ljóst að talsverður fjöldi gæti hafa fallið í átökunum.

Forsetakosningarnar verða haldnar 31. janúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×