Innlent

Úthlutaði 25 milljónum til atvinnumála kvenna

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, úthlutaði í dag 25 milljónum til atvinnumála kvenna.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, úthlutaði í dag 25 milljónum til atvinnumála kvenna.
Umhverfisvænar byggingareiningar, táknmálsvefur, rjómabú, baðhús í Stykkishólmi, þaraböð á Reykhólum, örlitameðferð til að bæta útlit eftir veikindi eða slys og hólkar úr bylgjupappír sem nota má sem skilrúm eru á meðal þeirra viðskiptahugmynda sem fengu úthlutað úr sjóði félags- og tryggingamálaráðuneytis til atvinnumála kvenna að þessu sinni. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir úthlutaði 25 milljónum til atvinnumála kvenna við athöfn í Iðnó í dag.

Í ár barst 261 umsókn en umsóknir hafa aldrei verið fleiri síðan byrjað var að veita styrkina árið 1991 að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, að fram kemur í tilkynningu. Alls er úthlutað til 38 viðskiptahugmynda og nema hæstu styrkirnir tveimur milljónum króna en þeir lægstu nema 300 þúsundum króna.

Tvær viðskiptahugmyndir fengu úthlutað tveimur milljónum króna. Annar styrkurinn er til vöruþróunar og markaðssetningar á umhverfisvænum byggingareiningum sem geta nýst sem skjól og tengst saman í stærri skýli, lengju eða hring. Hinn styrkurinn er til þróunar táknmálsvefs þar sem hægt er að læra táknmál og fræðast um menningu og sögu táknmálsins.

Þá er 1,8 milljón króna úthlutað til þróunar hugmyndar um rjómabú á Erpsstöðum til að framleiða ýmsar vörutegundir eins og ís, eftirrétti og osta. Baðhús sem nýtir heilsuvatnið í Stykkishólmi og þaraböð á Reykhólum fá hvort um sig úthlutað 1,5 milljón króna.

Ásta Ragnheiður sagði að „það væri svo sannarlega mikil ástæða til þess nú að ýta undir frumkvöðlastarf og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra." Þá hrósaði ráðherra umsækjendum fyrir hugmyndaauðgi og sagði „að verðlaunahugmyndirnar sýndu svo ekki væri um villst að á Íslandi væri sköpunarkraftur og kvenauður mikill."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×