Erlent

Clinton er dóni að mati Norður-Kóreumanna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AFP/Getty Images

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvetur Norður-Kóreumenn til að snúa aftur að samningaborðinu og halda áfram viðræðum um kjarnorkumál.

Mikið hefur gengið á undanfarna daga í samskiptum Hillary og Norður-Kóreumanna. Hefur utanríkisráðherrann sakað Norður-Kóreumenn um að hegða sér eins og óþekkt barn en frá Pyongyang berast á móti ásakanir um að Hillary sé dóni og hegði sér langt í frá skynsamlega. Hillary segir stríðsherrana ekki komast langt á skætingi, refsiaðgerðum gegn þeim sé beitt af festu og muni þar miklu um dyggan stuðning Japana, Kínverja, Suður-Kóreumanna og Rússa.

Norður-Kóreumenn verði hreinlega að snúa aftur að samningaborðinu og ræða kjarnorkuafvopnunarmál af alvöru ætli þeir ekki að lenda í fullkominni einangrun frá alþjóðasamfélaginu. Þá ítrekaði Hillary skilyrðislausa kröfu sína um að bandarísku blaðakonunum Lauru Ling og Eunu Lee yrði sleppt úr haldi Norður-Kóreumanna án tafar en þær voru handteknar í mars við landamæri Kína og Norður-Kóreu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×