Íslenski boltinn

Matthías: Fáir geta stöðvað okkur þegar við spilum sem lið

Ómar Þorgeirsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Mynd/Valli

FH-ingurinn Matthías Vilhjálmsson átti frábæran leik fyrir Íslandsmeistarana í 1-4 sigrinum á Stjörnunni í Pepsi-deildinni í kvöld og skoraði tvö marka Hafnarfjarðarliðsins.

„Það var mjög ljúft að klára þennan leik með þessum hætti og koma sterkir inn í mótið eftir Verslunarmannahelgina. Mér fannst liðið spila feykilega vel í leiknum, allir sem einn og sýndum enn og aftur hversu sterkir við erum.

Þegar við spilum eins og lið eru fáir sem geta stöðvað okkur. Ég var nú búinn að lesa einhvers staðar að menn hefðu verið að spá Stjörnusigri í kvöld og það kveikti í mér og liðinu öllu held ég og við létum verkin tala inni á vellinum," segir Matthías.

FH-ingar eru nú komnir með þrettán stiga forskot á KR-inga sem eiga þó leik til góða en liðin mætast á sunnudag og Matthías segir mikilvægt fyrir FH að halda áfram á sömu braut og slaka ekkert á klónni það sem eftir lifir sumars.

„Næsti leikur verður erfiður þar sem KR-ingar eru búnir að vera að spila vel og við þurfum að koma vel undirbúnir fyrir þann leik. Við erum í góðri stöðu í deildinni en getum komist í enn betri stöðu með jákvæðum úrslitum á móti KR og það er það sem við ætlum að ná fram," segir Matthías ákveðinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×