Innlent

Eva Joly vildi ekki koma til Íslands - Björk var gulrótin

Eva Joly var treg til þess að koma til Íslands þegar Egill Helgason bauð henni að koma fram í þætti sínum, Silfri Egils, á síðasta ári sem varð til þess að hún tók að sér ráðgjafahlutverk fyrir sérstakan saksóknara. Ástæðan var sú að hún var þá í framboði til Evrópuþingsins.

Aftur á móti tókst framleiðanda þáttarins að sannfæra Evu um að koma til landsins því það væri möguleiki á að Björk Guðmundsdóttir væri í sama þætti og því kjörið tækifæri til þess að hitta tónlistarkonuna. Þetta kemur fram í viðtali við Evu í Financial time sem birtist í gær.

Eva segir í viðtalinu að hún sé mikill aðdáandi Bjarkar og því hafi hún sannfærst um að koma til landsins í von um að hitta söngkonuna.

Til allra ólukku þá breyttist áætlun Bjarkar um að vera í þætti Egils en hún var þá stödd í New York. Eva sló samt til og kom til Íslands. Í kjölfarið bauðst henni að vera sérlegur ráðgjafi sérstaks saksóknara hér á landi.

Í viðtalinu kom einnig fram að rannsóknin á bankahruni Íslands sé mun stærri en ELF málið svokallaða í Frakklandi að mati Evu. Hún segist ekki gera sér grein fyrir því enn hversu stórt hrunið er hér á landi en býst við að ákærur líti dagsins ljós á næsta ári.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×