Innlent

Fjármögnun virkjana Orkuveitunnar á lokastigi

strókar frá hellisheiðarvirkjun Fjármögnun er nú á lokastigi fyrir Hellisheiðarvirkjun og Hverahlíðarvirkjun. Líklega verður skrifað undir samninga um lán frá Evrópska seðlabankanum í vikunni. fréttablaðið/valli
strókar frá hellisheiðarvirkjun Fjármögnun er nú á lokastigi fyrir Hellisheiðarvirkjun og Hverahlíðarvirkjun. Líklega verður skrifað undir samninga um lán frá Evrópska seðlabankanum í vikunni. fréttablaðið/valli

Evrópski fjárfestingarbankinn hefur samþykkt að lána Orkuveitu Reykjavíkur 30 milljarða króna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins barst samningur þess efnis til fyrirtækisins á föstudag, þar sem skilyrði bankans fyrir lánveitingu eru tíunduð. Það er fyrirtækisins að ákveða hvort það samþykkir þau skilyrði og þar með lánið. Verði það gert verður skrifað undir í vikunni, samkvæmt heimildum blaðsins.

Lánveitingin hefur tafist um ár vegna efnahagshrunsins. Það á að nota til að ljúka framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun og 15 milljarðar fara í Hverahlíðarvirkjun, verði hún byggð. Guðlaugur G. Sverrisson stjórnarformaður segir að þegar lánið gangi í gegn sé búist við því að Þróunarbanki Evrópu láni það sem vantar upp á til að ljúka síðarnefndu framkvæmdinni. Lánveiting Evrópska seðlabankans sé heilbrigðisvottorð sem liðki fyrir annarri lánveitingu.

Á stjórnarfundi á föstudag voru nýjar áætlanir vegna Hverahlíðarvirkjunar lagðar fram, en þar kemur fram að gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði dýrari en ætlað var. Guðlaugur segir viðræður í gangi við Norðurál um kaup á orkunni þaðan. Orka úr Hellisheiði fari til Norðuráls óháð álveri í Helguvík.

„Nú erum við í viðræðum við Norðurál um Hverahlíðarvirkjun. Túrbínur hafa hækkað í verði og innlendur kostnaður lækkað. Við þurfum að hækka allar tölur að okkar mati. Ef Norðurál tekur þátt í kostnaði vegna seinkunar hefur það áhrif á samningana.“

Eigið fé Orkuveitunnar hefur minnkað mjög undanfarið; úr 109 milljörðum króna árið 2007 í tæpa 40 og er það nú á milli 15 og 16 prósent. Guðlaugur segir að gengisþróun hafi gríðarleg áhrif á stöðuna. Batnaði gengi krónunnar um 10 prósent myndi eigið fé fyrirtækisins aukast um 20 milljarða.

Hann hefur ekki áhyggjur af því að fyrirtækið sé að verða of skuldsett. Það hafi staðið í miklum framkvæmdum undanfarið. „Við höfum haldið uppi atvinnustigi og framkvæmt fyrir 16 milljarða á árinu 2009, en nefna má að ríkið hefur framkvæmt fyrir 17 milljarða á sama tíma. Þetta höfum við fjármagnað að hluta til með skammtímalánum sem þessi lántaka hreinsar upp.“ Guðlaugur segir Orkuveituna búa við gott vaxtastig; meðaltalsvextir sem fyrirtækið greiðir séu 1,25 prósent. Það muni þó hækka eilítið við nýju lántökuna.

Spurður hvort Icesave og endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi áhrif á tímasetningu samninganna segir Guðlaugur svo ekki vera. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×