Innlent

Tugir sektaðir á landsleiknum

Dýrt gaman Landsleikurinn varð sumum dýrari en þeir ætluðu í upphafi.
Dýrt gaman Landsleikurinn varð sumum dýrari en þeir ætluðu í upphafi.

Lögreglan sektaði fimmtíu til sextíu bíleigendur sem höfðu lagt bílum sínum ólöglega meðan þeir horfðu á landsleik milli Íslands og Noregs á Laugardalsvelli síðastliðinn laugardag.

Samkvæmt upplýsingum frá Kristófer Sæmundssyni, varð­stjóra umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, voru mikil brögð að því að fólk legði bílum sínum uppi á grasi eða meðfram því sem allra næst vellinum.

„Auðvitað þarf önnur umferð að komast áfram. Að auki skapast hætta af því að leggja bílum uppi á graseyjum því þeir skyggja á aðra umferð, þótt þeir séu kannski ekki fyrir,“ segir hann.

„Þótt það sé landsleikur mega menn ekkert leggja hvar sem er frekar en undir öðrum kringumstæðum.“

„Það er hart að vera sektaður fyrir að styðja landsliðið,“ segir Jón Oddur Kristinsson, einn landsliðsgesta. „Þegar um svona stórviðburð eins og landsleik er að ræða er alls ekki pláss fyrir allan þann bílaflota sem því fylgir. Mér finnst þetta fáránlegt.“

Hjá stöðumælasjóði fengust þær upplýsingar að stöðubrotssekt sé 2.500 krónur, en 1.950 sé greitt innan þriggja daga. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×