Innlent

Rannsaka svindl með brunabótamat

Fyrir dómara. Sex karlmenn, fimm Litháaar og einn Íslendingur, voru leiddir fyrir dómara í gær. Gæsluvarðhald var framlengt yfir þeim til 4. nóvember.
Fyrir dómara. Sex karlmenn, fimm Litháaar og einn Íslendingur, voru leiddir fyrir dómara í gær. Gæsluvarðhald var framlengt yfir þeim til 4. nóvember.

Fimm Litháar og einn Íslendingur voru í gær úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til miðvikudagsins 4. nóvember vegna rannsóknar lögreglu á meintu mansalsmáli á Suðurnesjum og annarri skipulagðri glæpastarfsemi. Ekki var gerð krafa um framlengingu gæsluvarðhalds yfir sjöunda manninum, Íslendingi, sem einnig hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar og hefur hann verið látinn laus.

Tengsl eru milli mannanna sex sem sitja áfram inni. Þrír Litháanna hafa verið í vinnu hjá verktakafyrirtæki í eigu Íslendingsins, auk annarra tengsla innan hópsins. Þá tengjast allir Litháarnir fimm komu nítján ára litháískrar stúlku hingað til lands fyrr í mánuðinum. Rannsókn lögreglu beinist meðal annars að því hvort hún hafi verið fórnarlamb mansals. Stúlkan dvelur nú á vegum lögreglunnar á Suðurnesjum.

Rannsókn þessa umfangsmikla máls, sem þrjú lögregluembætti standa að, á Suðurnesjum, í höfuðborginni og á Snæfellsnesi, nær einnig til meintra tryggingasvika. Þau snúast um bruna sem varð í gamla fiskimarkaðnum við Sólvelli á Grundarfirði í lok ágúst í sumar. Fyrirtæki í eigu Íslendingsins sem sætir áfram gæsluvarðhaldi nú keypti um það bil þriðjung af húsnæðinu í janúar á þessu ári.

Rannsókn lögreglu hefur meðal annars snúist um ástæður þess að brunabótamat húsnæðisins hefur hækkað um ríflega tíu milljónir króna frá árinu 2006, þegar það var í eigu Byggðastofnunar, og þar til það varð eldinum að bráð í sumar. Eigandinn fékk um fjörutíu milljónir króna í tryggingabætur eftir brunann. Grunur um tengsl manna í hópnum, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi, við brunamálið á Snæfellsnesi vaknaði skömmu eftir að mansalsmálið kom upp á Suðurnesjum.

Ólafur K. Ólafsson lögreglustjóri á Snæfellsnesi sagði aðspurður að tæknideild lögreglu hefði rannsakað málið á sínum tíma, en eldsupptök væru enn ókunn. Krakkar hefðu sést sniglast fyrir utan byggingarnar áður en eldurinn hefði komið upp en þeir hefðu reynst brunanum með öllu óviðkomandi. Hann kvaðst ekki vilja tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Lögregla vill ekki veita frekari upplýsingar um efnisatriði rannsóknarinnar, en telur að henni miði vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×