Erlent

Bretar réttlæta beitingu hryðjuverkalaganna

Austin Mitchell, þingmaður Verkamannaflokksins og formaður Íslandstengslanefndar breska þingsins, tekur við undirskriftalista indefence.is úr hendi Lukku Sigurðardóttur í gervi íslensku fjallkonunnar. Ljósmynd/SHH/indefence.is
Austin Mitchell, þingmaður Verkamannaflokksins og formaður Íslandstengslanefndar breska þingsins, tekur við undirskriftalista indefence.is úr hendi Lukku Sigurðardóttur í gervi íslensku fjallkonunnar. Ljósmynd/SHH/indefence.is

„Forsvarsmenn breskra stjórnvalda, þar með taldir þingmenn úr báðum deildum breska þingsins, halda fast við þá afstöðu að það hafi verið fyllilega réttlætanlegt að beita umdeildum hryðjuverkavarnalögum til að frysta eigur Landsbankans og íslenskra stjórnvalda í Bretlandi í því skyni að verja hagsmuni breskra sparifjáreigenda.“ Þetta segir Ólafur Elíasson, einn talsmanna Indefence-hópsins svonefnda, eftir fund sem hópurinn átti í þinghúsinu í Lundúnum fyrr í vikunni.

Á fundinum afhenti Lukka Sigurðardóttir þær rúmlega 83.000 undirskriftir sem söfnuðust í vetur á vef indefence.is við mótmæla­yfirlýsingu við beitingu hryðjuverkalaganna. Við undirskrift­unum tók Austin Mitchell, þingmaður Verkamannaflokksins og formaður tengslanefndar breska þingsins við Alþingi.

Ólafur segir að á blaðamannafundi sem haldinn var í þinghúsinu hafi verið lesin upp ályktunin sem skrifað var undir í söfnuninni, en þar er beiting hryðjuverkalaganna fordæmd. Talsmenn hópsins röktu hvernig málavextir horfðu við Íslendingum, þar á meðal hvernig æðstu ráðamenn Breta hefðu beitt sér af hörku í áróðri gegn málstað Íslendinga, svert orðspor þjóðarinnar og valdið henni ómældu tjóni. Ítrekuðu þeir ósk þeirra er skrifuðu undir mótmælayfirlýsinguna um að bresk stjórnvöld bæðust afsökunar á þessu framferði sínu svo að leggja mætti þennan ljóta kafla í samskiptum þjóðanna að baki og hægt yrði að snúa sér að því að byggja þau samskipti upp á betri grunni.

Mitchell sagðist harma þessa atburðarás. En hann og aðrir viðmælendur hópsins, þar á meðal háttsettur fulltrúi úr utanríkisráðuneytinu, báru fyrir sig að bresk stjórnvöld hefðu „ekki átt annarra kosta völ“ en að grípa til þessara hryðjuverkalaga til að verja hagsmuni breskra sparifjáreigenda í íslensku bönkunum. Þessari fullyrðingu andmæltu breskir lögmenn sem voru í fylgd Indefence-manna. Að þeirra sögn hefði alls ekki þurft að beita þessum harkalegu aðferðum; næg önnur úrræði hefðu verið fyrir hendi til að verja hagsmuni sparifjáreigenda.

Ólafur segir hópinn einnig hafa spurt bresku þingmennina hvort þeir hefðu heyrt að einhverjar aðrar ástæður en vernd sparifjáreigenda kynni að hafa legið að baki ákvörðuninni um beitingu hryðjuverkalaganna, eins og sögusagnir hefðu heyrst um á Íslandi. Við það könnuðust þeir ekki, sem væri í samræmi við það sem fram hefur komið í umræðum um málið á breska þinginu. Þingmennirnir hefðu hins vegar boðist til þess að koma fyrirspurn um málið á framfæri í þinginu, og segir Ólafur hópinn ætla að þiggja það boð.

audunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×