Innlent

Fimmtíu þúsund eru talin í mestri áhættu

Heilbrigðisstarfsfólk á Landspítala sprautaði hvert annað á dögunum, samkvæmt ráðleggingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og sóttvarnaráði.Fréttablaðið/vilhelm
Heilbrigðisstarfsfólk á Landspítala sprautaði hvert annað á dögunum, samkvæmt ráðleggingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og sóttvarnaráði.Fréttablaðið/vilhelm

Sóttvarnalæknir telur allt að fimmtíu þúsund Íslendinga vera í mestri hættu af svínaflensunni, með svokallaða undirliggjandi sjúkdóma. Stefnt er að því að þetta fólk fái bólusetningu fyrir lok nóvember.

Ekki er á Haraldi Briem sóttvarnalækni að heyra að rétt sé að gera lítið úr svínaflensunni eða leggja hana að jöfnu við árlegu inflúensuna.

„Þótt svínaflensan sé almennt séð tiltölulega væg og að sumu leyti eins og venjulega inflúensan er lítill hópur manna sem veikist mjög hastarlega. Hundrað manns hafa verið lagðir inn á sjúkrahús síðan í lok september og fer tala þeirra vaxandi í hverri viku,“ segir Haraldur.

„Tíu prósent þessara lenda á gjörgæslu. Svo er þessi stóri massi sem lendir ekki svona illa í þessu, en þeir geta ekki talað fyrir hina. Ég hugsa að enginn myndi tala svona, að segja þetta eins og hvern annan inflúensuskít, ef hann þekkti einhvern sem hefur lent illa í þessu,“ segir hann.

Árstíðabundna inflúensan leggi helst aldrað fólk á dvalarheimilum að velli og veki ekki mikla athygli.

„Munurinn núna er að þeir sem eru að lenda á gjörgæslu eru miklu yngri, þrjátíu til sextíu ára, með mjög svæsna veiru-lungnabólgu með miklum öndunarerfiðleikum,“ segir Haraldur.

En sagan er ekki sögð með þessu, því erlendar tölur benda til að um þriðjungur þeirra sem lenda á gjörgæslu sé alls ekki með undirliggjandi sjúkdóma. Ekki heldur allir þeir sem hafa látist úr veikinni. Því vill Haraldur láta bólusetja alla landsmenn.

klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×