Íslenski boltinn

Heimir: Ungir leikmenn verða ekki betri ef maður notar þá ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var sáttur með 3-0 sigur á Breiðabliki í úrslitaleik Lengjubikarsins í dag. Heimir tefldi fram hálfgerðu unglingaliði en sjö af ellefu byrjunarliðsmönnum voru fæddir 1987 eða síðar.

„Þetta var mjög gott. Ungir leikmenn verða ekkert betri ef maður notar þá ekki. Þetta er ángæjulegt vandamál fyrir mig því nú hef ég úr fleiri mönnum að velja," sagði Heimir.

„Þetta er úrslitaleikur og ungu strákarnir komu kannski pínu stressaðir inn í leikinn. Það rann af þeim. Þegar þú spilar á móti liði eins og Breiðablik sem liggur aftarlega þá er ákveðin þolinmæði sem þarf að eiga sér stað. Þeir unnu sig hægt og vel inn í leikinn og við unnum öruggan og sanngjarnan sigur," sagði Heimir.

FH-ingar mæta KR í Meistarakeppni KSÍ á mánudaginn en Heimir er ekkert búinn að ákveða hvort að stráklingarnir fái að spila þann leik líka.

„Ég veit ekkert hvort þeir fái aftur að spila á móti KR. Þessi leikur var að klárast og nú þarf ég að fara að hugsa um KR-leikinn á mánudaginn. Þá kemur bara í ljós hvað maður gerir," sagði Heimir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×