Innlent

Tóku út upplýsingar um skuldir Actavis

Seðlabanki Íslands bað um frestun útgáfu skýrslu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda.

Til stóð að birta skýrsluna um miðjan dag í gær, en árdegis kom tilkynning frá AGS um að útgáfu hefði verið frestað. Engar skýringar fylgdu eða ný tímasetning útgáfu. Heimildir blaðsins í höfuðstöðvum AGS í Washington herma að beiðni um frestun útgáfunnar hafi komið frá Íslandi og að skýrslan verði birt jafnskjótt og stjórnvöld hér gefi grænt ljós á útgáfuna.

Í Seðlabanka Íslands fengust þær upplýsingar að þar á bæ hafi starfsmenn við yfirferð á málinu komist að því að skoða þyrfti betur tilteknar afmarkaðar upplýsingar sem komið hafi fram í skýrslunni. Seðlabankinn hafi því farið fram á það við AGS að útgáfu skýrslunnar yrði frestað.

Samkvæmt heimildum blaðsins voru upphaflega í skýrslunni upplýsingar um erlendar skuldbindingar samheitalyfjarisans Actavis og gjalddagar á lánum fyrirtækisins á næstunni. Birting slíkra upplýsinga stangast á við íslensk lög og voru þær fjarlægðar. Actavis skuldaði rúma 3,9 milljarða evra, jafnvirði sjö hundruð milljarða króna, í lok síðasta árs, samkvæmt ársreikningi. Lánin öll eru í skilum, samkvæmt upplýsingum frá Actavis.

Skoðun Seðlabankans lauk í gær og boðum var komið til AGS um að gefa mætti út skýrsluna.

Samkvæmt upplýsingum sem blaðið hefur aflað sér er ekki óalgengt að stjórnvöld ríkja biðji um frestun á útgáfu skýrslna AGS, en á frestun sé ekki fallist nema að svigrúm þurfi til að leiðrétta staðreyndavillur, eða gæta að því að ekki verði birt viðkvæm gögn sem skaðað geti markaði.

- óká / jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×