Innlent

Þurfa ár til að gera breytingar

Samskipti Facebook-samskiptasíðan hefur notið gríðarlegra vinsælda víða um heim, þar á meðal á Íslandi.
Fréttablaðið/Valli
Samskipti Facebook-samskiptasíðan hefur notið gríðarlegra vinsælda víða um heim, þar á meðal á Íslandi. Fréttablaðið/Valli

Forsvarsmenn samskiptavefsíðunnar Facebook ætla að taka sér ár í að gera breytingar á síðunni eftir að kanadíska persónuverndarstofnunin gerði alvarlegar athugasemdir við meðferð á þeim persónuupplýsingum sem geymdar eru á Facebook.

Fyrirhugaðar breytingar snúast um svokallaðar viðbætur, forrit sem þriðji aðili getur sett inn, sem og eyðingu heimasvæðis notenda, að því er fram kemur í grein á vef Persónuverndar.

Facebook-samskiptasíðan hefur sætt vaxandi gagnrýni fyrir að upplýsa lítið sem ekkert um hvernig þriðju aðilar fá aðgang að upplýsingum um notendur síðunnar.

Þegar viðbótarforrit eru opnuð í gegnum síðuna þarf notandi að samþykkja að veita forritinu aðgang að öllum persónuupplýsingum sem viðkomandi hefur sett inn, en hefur enga stjórn eða vitneskju um hvernig þær upplýsingar eru nýttar, segir á vef Persónuverndar. Forsvarsmenn Facebook segjast nú vilja breyta þessu svo notendur verði betur upplýstir.

Þá vilja stjórnendur samskiptasíðunnar einnig auðvelda eyðingu á heimasvæði notenda, og skýra notendaskilmála betur í tengslum við dauðsfall notenda, eins og fram kemur á vef Persónuverndar. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×