Innlent

Nokkrir búnir að játa innbrot

SKARTGRIPIR Enn sem fyrr fann lögreglan mikið magn af skartgripum, auk annars þýfis, fyrr í vikunni.
SKARTGRIPIR Enn sem fyrr fann lögreglan mikið magn af skartgripum, auk annars þýfis, fyrr í vikunni.

Yfirheyrslur yfir þeim meintu þjófum sem sitja í gæsluvarðhaldi eru í fullum gangi. Í einhverjum tilvikum liggja játningar í innbrotsmálum fyrir.

Meðal þess þýfis sem lögregla hefur fundið á síðastliðnum dögum var mikið magn af vönduðum íþróttafatnaði. Andvirði þess fatnaðar sem stolið var úr fyrirtæki í borginni er 1,8 milljón króna.

Karlmaður úr þeim níu manna hópi sem handtekinn var fyrr í vikunni hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í viku. Hann hafði áður verið handtekinn vegna gruns um aðild að innbrotum á höfuðborgarsvæðinu.

Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á svæðisstöð 4 í Mosfellsbæ, segir óyggjandi að þýfið sem lögreglan fann í aðgerðunum sé úr fjórum innbrotum, á þrjú heimili og í eitt fyrirtæki.

Lögreglan rannsakar þjófnaðarmálin af fullum krafti, auk þess sem verið er að skrá, flokka og ljósmynda það mikla magn þýfis, sem hún hefur fundið í húsleitum. Síðan verður lögð áhersla á að koma öllu í réttar hendur. Fólki er bent á að lögreglan hefur frumkvæði að því að hringja í það í tilvikum þar sem talið er að þýfið sé úr tilteknum innbrotum.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×