Innlent

Össur: Sjálfstæðismenn eru skræfur

Össur Skarphéðinsson og Bjarni Benediktsson tókust á í umræðum um ríkisábyrgð vegna Icesave á Alþingi í dag.
Össur Skarphéðinsson og Bjarni Benediktsson tókust á í umræðum um ríkisábyrgð vegna Icesave á Alþingi í dag. Mynd/GVA
„Sjálfstæðismenn eru slíkar skræfur að þeir þola ekki að aðkoma þeirra að málinu sé rifjuð upp," sagði utanríkisráðherra í umræðum um ríkisábyrgð vegna Ícesave-samkomulagið á Alþingi í dag. Rök ráðherrans í málinu er samfelldur brandari, að mati formanns Sjálfstæðisflokksins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, mælti fyrr í dag fyrir frumvarpi um ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna Icesave-samkomulagsins. Í framhaldinu tókust stjórnarliðar og þingmenn stjórnarandstöðunnar á um ríkisábyrgðina og voru margir þeirra heldur stóryrtir.

Íslandsmet í hröðum flótta frá eigin orðum

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hafa sett Íslandsmet í hröðum flótta frá eigin orðum og eigin ábyrgð í málinu og rifjaði upp ræðu Bjarna frá 5. desember þegar viðræður við bresk og hollensk yfirvöld voru til umræðu.

Össur sagði að Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, hefði lagt fram drög að samningi sem hefði verið mun verri en sá sem nýverið var undirritaður. Komið hefði verið í veg fyrir að staðfestingu þess samnings.

„Það var jafnframt sami fjármálaráðherra sem féllst á það með samþykki þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins að fallast á bindandi gerðardóm án þess að bera það undir nokkurn mann í ríkisstjórninni. Þannig starfaði Sjálfstæðisflokkurinn á þessum tíma og læt ég liggja á milli hluta ábyrgð hans 18 árin þar á undan," sagði ráðherrann.

Samfelldur brandari

Bjarni sagði ræðu Össurar vera samfelldur brandari. „Það var Árni Mathiesen sem gerði þetta. Það var Geir Haarde sem gerði þetta. Ég sat í ríkisstjórn. Ég vissi ekki neitt."

Einu rök Össurar væru þau að einstaka ráðherrar

Sjálfstæðisflokksins hafi verið búnir að skuldbinda íslensku þjóðina.

Að lokum sagði Bjarni: „Við eigum ekki að láta kúga okkur til samninga sem við viljum ekki og getum ekki staðið við."

Líklegt er að umræður um frumvarpið muni standa langt fram á kvöld en á þriðja tug þingmanna bíða þess að taka til máls. Umræður hefjast á nýjan leik eftir fundarhlé klukkan hálf tvö.




Tengdar fréttir

Steingrímur: Samkomulagið hluti af herkostnaðinum

„Þetta er hluti af herkostnaðinum sem við sitjum uppi með," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um ríkisábyrgð vegna Icesave-samkomulagsins á Alþingi í dag. Ráðherrann sagði skítt að Íslendingar sitji uppi með afleiðingar andvaraleysis stjórnvalda undanfarinna ára. Þá fullyrti Steingrímur að milljarðarnir sem fengust fyrir Landsbankann þegar hann var einkavæddur á sínum tími hafi verið þeir dýrustu í sögu Íslands.

Atli Gíslason: Kannski betra að lýsa yfir þjóðargjaldþroti

Geti Íslendingar ekki staðið undir erlendum skuldbindingum blasir við þjóðargjaldþrot. Þetta er mat stjórnarþingmannsins Atla Gíslasonar. Hann segist ekki munu samþykkja Icesave samninginn reynist það rétt að erlendar skuldir nemi 250 prósentum af landsframleiðslu.

Icesave á dagskrá þingsins í dag

Alþingi kemur til með að taka fyrstu umræðu um ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innistæðueigenda á þingfundi klukkan 10:30 í dag. Fer þar fram umræða um það hvort þingið „samþykki" Icesave samninginn.

Vildu fresta umræðu um Icesave

Pétur H. Blöndal og Birgir Ármansson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fóru fram á það við Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, í dag að öllum umræðum um Icesave-samkomulagið yrði fram frestað fram yfir helgi. Hún varð ekki við þeirri bón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×