Innlent

FME eykur áherslu á eftirlit á vettvangi

Hrunið Fjármálaeftirlitið leið fyrir fjárskort og mikla starfsmannaveltu í aðdraganda hrunsins, sagði Gunnar Þ. Andersen, forstjóri eftirlitsins (fyrir miðju), á ársfundi FME í Rúgbrauðsgerðinni í gær. Fréttablaðið/Stefán
Hrunið Fjármálaeftirlitið leið fyrir fjárskort og mikla starfsmannaveltu í aðdraganda hrunsins, sagði Gunnar Þ. Andersen, forstjóri eftirlitsins (fyrir miðju), á ársfundi FME í Rúgbrauðsgerðinni í gær. Fréttablaðið/Stefán

Breytingar á eftirliti Fjármálaeftirlitsins (FME) á eftirliti með fjármálafyrirtækjum eru boðaðar í ársskýrslu FME fyrir árið 2008, sem gerð var opinber á ársfundi eftirlitsins í gær. Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, sagði á ársfundinum að aukin áhersla verði lögð á að sannreyna upplýsingar frá fyrirtækjunum.

Stofnaðir verða þverfaglegir hópar innan FME sem eiga að einbeita sér að skipulegu eftirliti á vettvangi, til að sannreyna það sem fram kemur í skýrslum frá eftirlitsskyldum aðilum. Þá verður stofnuð ný deild innan FME sem stýra mun nákvæmum rannsóknum á ársskýrslum fjármálafyrirtækja.

„Það er nöturleg en sönn lýsing að hagvöxtur undanfarinna ára hafi verið fenginn að láni,“ sagði Gunnar, þegar hann fjallaði um aðdraganda bankahrunsins fyrir rúmu ári.

Þegar litið er til baka má finna marga veikleika hjá íslenskum lánastofnunum fyrir hrun, sérstaklega hvað varðar áhættustýringu, stjórnarhætti og innra verklag, sagði Gunnar. Þá hafi innra jafnt sem ytra eftirliti verið ábótavant.

Gunnar sagði rannsóknir FME frá hruni benda til þess að auk óeðlilegra viðskiptahátta hafi alvarleg lögbrot verið framin innan íslenskra fjármálafyrirtækja, til dæmis markaðsmisnotkun, innherjaviðskipti og mögulega innherjasvik. Þá kunni sum brotanna að varða við almenn hegningarlög.

Eftirlit og eftirlitskerfi, jafnt innan fjármálastofnana sem utan, brugðust í aðdraganda hrunsins, segði Gunnar. Hjá FME hafi fjöldi starfsmanna alls ekki haldist í hendur við aukið álag og vöxt fjármálageirans, auk þess sem mikil starfsmannavelta hjá eftirlitinu hafi skaðað stofnunina og heft eftirlitsskyldu hennar.

Fram kemur í ársskýrslu FME að stjórn eftirlitsins hafi nýverið samþykkt að auka gegnsæi í starfi þess, og heimila opinbera birtingu á öllum niðurstöðum embættisins, stefni það ekki hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu. Þessari breytingu er bæði ætlað að efla varnaðaráhrif aðgerða FME, og auka sátt um störf eftirlitsins.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×