Innlent

Tólf ráðherrar en sautján aðstoðarmenn

Ingimar Karl Helgason. skrifar

Pólitískir aðstoðarmenn núverandi ríkisstjórnar eru öllu fleiri en ráðherrarnir. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ráðherrar hafi heimild til að ráða sér einn pólitískan aðstoðarmann. Séu þeir fleiri, sé farið á svig við lög.

Ráðherrar í ríkisstjórninni og raunar gengnum ríkisstjórnum hafa haft sérstaka pólitíska aðstoðarmenn. Stundum fleiri en einn.

Til að mynda eru að minnsta kosti tveir pólitískir menn Jóhönnu Sigurðardóttur til aðstoðar í forsætisráðuneytinu. Steingrímur J. Sigfússon er með þrjá aðstoðarmenn. Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra er með tvo; aðstoðarmann og lögfræðilegan ráðgjafa, sem líka er varaþingmaður Samfylkingarinnar. Menntamálaráðherra er með tvo.

Aðrir ráðherrar láta sér duga einn.

Ráðherrarnir eru tólf. Pólitískir aðstoðarmenn eru hins vegar sautján. Þeir heita ýmsum nöfnum; aðstoðarmenn, upplýsingafulltrú, ráðgjafi eða lögfræðilegur ráðgjafi.

Ráðherra er heimilt að kveðja sér til aðstoðar, meðan hann gegnir embætti, mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem skrifstofustjóri enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðherra.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að í lögum um stjórnaráðið hafi þeir heimild til þess að ráða einn, aðra heimildir hafi þeir ekki.

Gunnar Helgi segir að undanfarna tvo áratugi eða lengur, hafi ráðherrar tíðkað að ráða fleiri.

Ráðherrar virðist þurfa á pólitískri aðstoð að halda, en telji ráðuneytin ekki fær um að veita hana. Hins vegar sé grunnhugmyndin að baki stjórnsýslunni að þar sé fastalið; sem ekki endilega hangi saman við ráðherrann hverju sinni.

Hins vegar hafi menn tíðkað að moka inn sínu liði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×