Innlent

Orku- og umhverfisskattar verði 7,5 milljarðar króna

MYND/Vísir

Ríkisstjórnin er tilbúin að lækka þá upphæð sem umhverfis-, orku- og auðlinda­gjöld skila í ríkiskassann á næsta ári úr 16 milljörðum króna í 7,5 milljarða. Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafa mótmælt þessum gjöldum og er þetta tillaga til sáttar. Orkugjaldið verður, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, tólf aurar á kílóvattstund, ekki ein króna eins og lagt var til í fjárlagafrumvarpinu.

Unnið er að tillögum um útfærslu á skattkerfinu og einar tillögur gera ráð fyrir þriggja þrepa kerfi. Gert er ráð fyrir að skattar verði 23,8 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2010. Í ár verða þeir 28 prósent og árið 2007 voru þeir 31,4 prósent af vergri landsframleiðslu.

Að kröfu SA og ASÍ er nú unnið að tillögum um hækkun tryggingargjalds. Sú hækkun á að skila 7,5 milljörðum króna. Er þá reiknuð inn í sú útgjaldaaukning sem ríkið sjálft verður fyrir sem launagreiðandi. Þess má geta að tryggingargjaldið hækkaði í sumar úr 5,37 prósentum í 7 prósent. Samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins skilar eins prósents hækkun á grunntekjuskatti 7,1 milljarði króna í ríkiskassann.

Sveitarfélögin eru stór launagreiðandi og mun launakostnaður þeirra aukast um 750 milljónir króna, fái þau ekki undanþágu. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfirði þýddi hækkunin í sumar 100 milljóna króna útgjaldaaukningu fyrir sveitarfélagið. - kóp
























Fleiri fréttir

Sjá meira


×