Innlent

Kveiktu í flaki flugvélar á fjölmennri æfingu

Frá æfingunni í dag.
Frá æfingunni í dag.
Kveikt var í flaki flugvélar að gerðinni Fokker 50 á flugslysaæfingu sem fór fram á Egilsstaðaflugvelli sem lauk á þriðja tímanum í dag. Rúmlega 200 manns tóku þátt í æfingunni.

Bjarni Sighvatsson, æfingastjóri og starfsmaður Flugstoða, segir að æfingin hafi gengið vel en eins og ávallt í umfangsmiklum æfingum koma ýmis atriði fram sem mættu fara betur, að fram kemur í tilkynningu.

Samkvæmt handriti æfingarinnar voru 35 farþegar í vélinni sem átti að hafa brotlent. Í framhaldinu fór viðbragðskerfi Austurlands af stað og viðbragðs- og björgunaraðilar komu á staðinn slökktu elda og björguðu farþegum í aðstæðum sem gerðar voru eins raunverulegar og mögulegt var.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, fylgdist með æfingunni í dag. Hann sagði mikilvægt fyrir viðbragðsaðila að æfa eftir viðbragðsáætlun þannig að sömu vinnubrögð séu viðhöfð óháð því hvar hópslys verði á landinu.

Flugstoðir höfðu yfirumsjón með flugslysaæfingunni í samstarfi við fjölmarga aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×