Íslenski boltinn

Blikar fljúga frá Bakka til Eyja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Mynd/Anton

ÍBV leikur sinn fyrsta heimaleik í Pepsi-deild karla í kvöld og verður þá lið Breiðabliks í heimsókn. Þó nokkuð rok hefur verið á suðurlandi í dag en þó er enn flogið til Eyja.

Blikar munu reyndar fljúga frá Bakka en liðið var á leið þangað þegar Vísir heyrði hljóðið í Ólafi Kristjánssyni, þjálfara liðsins.

„Við komum örugglega niður aftur," sagði hann í gamansömum tón spurður hvort hann óttaðist nokkuð flugferðina. „En ég er nú yfirleitt ekki smeykur við að fljúga."

Hann segir að leikurinn leggist vel í sig enda gekk vel síðast þegar hann fór með lið Blika til Eyja. „Þá var ég nýtekinn við liðinu og okkur tókst að ná í öll stigin þrjú. En það er alltaf gaman að fara til Eyja og ríkir tilhlökkun í hópnum fyrir leikinn."

Breiðablik vann 2-1 sigur á Þrótti í fyrstu umferð deildarinnar og getur því í kvöld unnið sinn annan sigur í röð. ÍBV er þó enn stigalaust eftir að hafa tapað fyrir Fram í fyrstu umferðinni.

„Það er fínt að vera búnir að landa sigri í fyrsta leik og við munum gera allt sem við getum til að landa öðrum sigri í kvöld."

„En ÍBV er með hörkulið. Þeir eru með góða útlendinga og fína heimamenn. Ég sá liðið í tveimur leikjum í fyrra og þeir voru virkilega flottir í þeim."

Blikar mæta með fullmannað lið til Eyja í kvöld þar sem enginn leikmaður á við meiðsli að stríða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×