Innlent

AGS: Samkomulag um forsendur í höfn

Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að íslensk stjórnvöld og starfsmenn sjóðsins hafi náð samkomulagi um þær forsendur sem endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands skuli byggja á. Fjármálaráðherra bindur vonir við að fyrsta endurskoðun sjóðsins fari fram í síðari hluta septembermánaðar.

Eins og fram kom í gær verður fyrsta endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands ekki tekin fyrir 14. september næstkomandi þrátt fyrir að svo segi í dagskrá á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fjármálaráðherra segir stjórnvöld hér á landi ekki hafa fengið nein boð um dagsetningar.

Í svari talsmanns AGS við fyrirspurn fréttastofu segir að íslensk stjórnvöld og starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi hafi náð samkomulagi um þau grundvallaratriði sem endurskoðunin skuli byggja á. Þau atriði séu nú í skoðun hjá sjóðnum og þegar því mati hafi verið lokið verði endurskoðunin kynnt fyrir framkvæmdastjórn AGS, sem þurfi að leggja blessun sína yfir hana. Búist sé við að það verði gert í þessum mánuði.

Samhliða því fær Ísland greiddan annan hluta lánsins frá AGS, 155 milljónir dala. Fjórðungur af 2,5 milljarða dala lánum Norðurlandanna fylgja svo í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×