Enski boltinn

Zola vill komast í Evrópukeppnina fyrir ungu strákana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianfranco Zola, stjóri West Ham.
Gianfranco Zola, stjóri West Ham. Mynd/AFP

West Ham vann 1-0 sigur á Stoke í ensku úrvalsdeildinni í gær og er sem stendur í 7. sæti deildarinnar sem þýðir að liðið kæmist í UEFA-keppnina á næsta tímabili.

„Sum lið vilja sleppa við Evrópukeppnina út af mikilli fjölgun leikja en við erum með svo marga unga leikmenn sem fengju dýrmæta reynslu af því að spila í Evrópukeppninni. Þeir myndu ná að bæta sig mjög mikið á því," sagði Gianfranco Zola, stjóri West Ham.

Zola var með sex leikmenn yngri en 21 árs í hópnum á móti Stoke. Það voru þeir  Jack Collison, Zavon Hines, Josh Payne, Freddie Sears, Junior Stanislas og James Tomkins. Hólmar Örn Eyjólfsson bíður líka spenntur eftir því að fá tækifærið hjá Zola.

„Við munum gefa allt okkar í lokasprettinn. Ég veit að mínir leikmenn eru staðráðnir í að ná Evrópusætinu. Ég verð samt að viðurkenna að ég er svolítið hissa á því að við séum í þessari stöðu," sagði Zola.

„Ég ætlaði að skila góðu starfi en ég bjóst aldrei við að við værum með í baráttunni um Evrópusætið," sagði Zola að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×