Erlent

Rannsaka hvort það átti að pynta Guantanamo fanga

Sir Paul Stephenson, lögreglustjóra hjá Lundúnalögreglunni, hefur verið falið að sjá um rannsóknina. Mynd/ AFP.
Sir Paul Stephenson, lögreglustjóra hjá Lundúnalögreglunni, hefur verið falið að sjá um rannsóknina. Mynd/ AFP.

Bresku lögreglunni hefur verið falið að rannsaka hvort breska leyniþjónustan, MI5, hafi átt þátt í að pynta Binyam Mohamed sem fangelsaður var í Guantanamo-fangabúðum Bandaríkjamann á Kúbu. Hann var látinn laus í síðasta mánuði. Sir Paul Stephenson, lögreglustjóra hjá Lundúnalögreglunni, hefur verið falið að sjá um rannsóknina. Sérfræðingur breska ríkisútvarpsins, BBC, í öryggismálum segir þetta í fyrsta sinn sem breskum löggæsluyfirvöldum sé falið að rannsaka störf bresku leyniþjónustunnar, MI5.

Binyam Mohamed er fæddur í Eþíópíu. Hann kom til Bretlands 1994 og sótti um hæli vegna pólitískra ofsókna. Þeirri ósk var synjað árið 2000 en honum veitt sérstakt leyfi til að dvelja í Bretlandi næstu 4 árin á eftir. Mohamed var handtekinn eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, grunaður um aðild að hryðjuverkum. Auk þessa að hafa verið látinn dúsa í Guantanamo-fangabúðunum var hann fangelsaður í Afganistan, Marokkó og Pakistan.

Mohamed segist hafa sætt pyndingum í Marokkó 2002 þar sem fulltrúar þarlendra yfirvalda hafi spurt hann spurninga sem hafi án efa komið frá breskum leyniþjónustustofnunum. Breskur leyniþjónustumaður hafi síðan komið að yfirheyrslunum þar. Sá neitar að hafa pyndað Mohamed. Rannsóknin mun að sögn bresku lögreglunnar einkum beinast að þeim leyniþjónustumanni sem ekki hefur verið nafngreindur. Hann mun hafa verið sendur til Karachi til að yfirheyra Mohamed.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×