Fótbolti

Ronaldo fagnaði eins og brjálæðingur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldo er farinn að skora fyrir Corinthians
Ronaldo er farinn að skora fyrir Corinthians Mynd/AFP

Brasilíumaðurinn Ronaldo gjörsamlega missti stjórn á sér þegar hann opnaði markareikninginn fyrir Corinthians í nótt. Ronaldo kom inn á sem varamaður og tryggði Corinthians 1-1 jafntefli.

Ronaldo skoraði jöfnunarmarkið með skalla í uppbótartíma en hann lék aðeins síðasta hálftíma leiksins. Corinthians var þarna að spila við nágrannana í Sao Paulo og var þetta sannkallaður derby-slagur.

Ronaldo lék á dögunum sinn fyrsta leik í 387 daga síðan að hann meiddist illa á hné í leik með AC Milan og þetta var síðan fyrsta markið hans í meira en ár. Þetta var því stór stund fyrir Ronaldo sem gjörsamlega missti stjórn á sér eftir að hann skoraði markið.

Ronaldo hljóp beint til stuðningsmanna Corinthians fyrir aftan annað markið og stökk upp á grindverkið sem skilur á milli þeirra og vallarins. Þar fagnaði hann eins og brjálæðingur og var skömmu síðar orðinn aðþrengdur af bæði liðsfélögum og fjölmiðlamönnum.

"Ég gat ekki stjórnað tilfinningum mínum. Þetta var einstök stund," sagði Ronaldo eftir leikinn en hann fékk að líta gula spjaldið fyrir atvikið.

Það þurfti að stöðva leikinn í nokkrar mínútur og engu munaði að girðingin gæfi sig þegar stuðningsmennirnir stukku upp á hana á móti Ronaldo. Girðingin hélt, það slasaðist enginn sem betur fer og lögreglan náði fljótlega fullri stjórn á aðstæðum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×